Ég er búinn að vera að gæla við hugmyndina að hætta kannski að reykja.
Fyrir uþb tveimur árum síðan náði ég að hætta í smá tíma og pantaði mér alltaf vökva að utan, af því það er okrað svakalega á þessu eins og öllu öðru á þessu skeri.
Núna var ég að panta mér 30ml af vökva og nýja brennara fyrir gömlu rafsígarettuna, best að reyna einu sinni enn að losna við sígaretturnar. Þegar pakkinn var kominn sendi ég reikninginn á póstinn eins og ég hef gert mörgum sinnum áður. Bjóst svo við að sækja pakkann seinna í vikunni og var farið að hlakka smá til. Kannski tekst þetta núna.
Í morgun fæ ég svo þennan póst frá Íslandspósti:
Góðan daginn
Tollverðir hafa skoðað innsend gögn og duga þau ekki til tollafgreiðslu.
EC- ID númerin þurfa að koma fram á kvittun til þess að hægt sé að nota hana við tollafgreiðslu.
Endilega sendu okkur upplýsingar í gegnum http://www.postur.is/sendagogn
...
Vinsamlegast athugið að þetta er noreply@postur.is og ekki er hægt að svara þessum pósti.
Hvað á maður að gera við svona upplýsingar? Þessir tollverðir vita alveg að seljendur úti í heimi eru ekkert að fara að setja númer CE merkingar á reikninga út af einhverjum sér-íslenskum reglum.
Það er augljóst að þetta er gert svona bara til að hindra það að einstaklingar geta verslað vökvann á netinu.
Þegar ég fer að googla þetta finn ég að ný lög um rafsígarettur og öðru tengdum þeim tóku gildi 1. mars á þessu ári, undir því yfirskyni að þau eigi að tryggja gæði og öryggi, en auðvitað snýst þetta bara um pening. Ríkissjóður vill sinn skammt af þessu. Örugglega farinn að finna fyrir í buddunni þar sem tóbakssala hefur farið minnkandi undanfarið.
En jæja, ég má víst ekki hætta að reykja alveg strax. Fer og kaupi mér annan pakka af sígarettum. Ríkið fær vænan skammt af þeirri sölu og hlýtur að vera ánægt með það.