![Mynd](http://sphotos-b.ak.fbcdn.net/hphotos-ak-snc6/c13.0.403.403/p403x403/199280_531236146902740_1648868791_n.jpg)
Windows 8 kemur út þann 26. október og því er ekki úr vegi að líta yfir helstu kosti og galla kerfisins og notendaviðmótsins á borðtölvum og fartölvum sem eru ekki með snertiskjá.
En áður en við vindum okkur í það skulum við aðeins líta yfir sviðið í víðara samhengi.
Windows 8 verður sniðið að spjaldtölvum, með helling af smáforritum (öpp) í boði og góðum afköstum sem mun gera Microsoft kleyft að keppa við Apple og Google á þeim markaði, sérstaklega þegar kemur að kraftmeiri og dýrari vélum. Og einmitt í þessum kraftmeiri vélum, og jafnvel símum í náinni framtíð, verður hægt að keyra mikið af þeim hugbúnaði og leikjum sem við notum í dag, og ef tengikvír verða útbreiddar þá gengur þú um með tölvuna þína á daginn og stingur henni í samband við stærri skjá, lyklaborð og mús þegar þú þarft á því að halda. Þetta er framtíðasýn Microsoft og annarra tæknirisa og útskýrir þessa áherslu á annað viðmót en gamla góða skjáborðið og ef rétt reynist er mesta bylting í tölvuheiminum síðan Windows 95 kom út, eða jafnvel síðan IBM kom PC tölvunni á markaðinn árið 1981.
Með það frá getum við haldið áfram að einblína á þær milljónir tölvunotenda sem eiga ekki spjaldtölvur og þurfa að nota klassískar tölvur við leik og störf.
Stærsta breytingin, og það sem flestir hafa og munu kvarta yfir er nýja viðmótið (áður kallað Metro) og vöntun á ræsihnappnum sem hefur fylgt okkur síðan 1995. Þetta viðmót sem er sniðið að spjaldtölvum er ekki eins vel sniðið að klassískum tölvum og tekur töluverðan tíma að venjast. Sumir munu jafnvel ekki ná að venjast eða sætta sig við það, og af skiljanlegum ástæðum. Fjölverkavinnsla (e. multitasking) er nefninlega nánast ómöguleg á því viðmóti, en verður þó til staðar í klassíska gluggaumhverfinu. Að venjast því að ræsivalmyndin sem við höfum notað í 17 ár sé horfin á eftir að taka tíma að venjast, og eins hvernig best er að hafa hraðan aðgang að þeim hugbúnaði sem við notum mest mun valda mörgum notendum höfuðverk.
En á móti koma aðrar breytingar sem hefur farið minna fyrir í umfjöllun um þessa nýjustu útgáfu Windows stýrikerfisins. Flestar þær breytingar eru undir húddinu og eru t.d. hraðari ræsitími, minni vinnsluminnisþörf og mun snarpara kerfi en Windows 7, sem þó er snarpt. Vírusvörn er núna innbyggð í stýrikerfið sem er velkomin viðbót fyrir notendann og ný nálgun að geymslusvæðum sem heitir Storage Spaces gerir notenda kleyft að bæta hörðum diskum við eftir þörfum og skilgreina þá sem sama geymslupláss. Kerfið sér um að dreifa gögnunum á milli diskanna á þann hátt að þótt einn diskur bili ætti ekki að verða (mikið) gagnatap. Þetta er fyrsta skrefið í því að kveðja gömlu stafaskilgreiningarnar á drifunum sem er að mínu mati orðið löngu úrelt fyrirkomulag.
Án þess að fara ýtarlegar í kerfið get ég fyrir mitt leiti sagt að Windows 8 sé ekki lakara en Windows 7, þótt það sé ekki endilega betra. Vandamálið er að það er öðruvísi, og það getur verið of stór biti að kyngja fyrir suma.
Þessi grein var skrifuð í Word 2013 á Windows 8 stýrikerfinu.
Axel Þór Kolbeinsson
Tæknimaður hjá Tölvuvirkni ehf.