Pósturaf Talsmenn » Mán 17. Okt 2011 18:00
Alvarlegar rangfærslur í frétt Stöðvar 2 um Tal
Að gefnu tilefni vill Tal taka fram að frétt um ágreining á milli Tals og Vodafone hefur ekki nokkur einustu áhrif á viðskiptavini Tals. Tal tryggir viðskiptavinum sínum traust fjarskiptasamband á sömu góðu kjörum og hingað til og markmið okkar er óbreytt: Að viðskiptavinir borgi sem allra minnst fyrir síma, net og sjónvarpsþjónustu.
Tal gerir hins vegar athugasemdir við alvarlegar rangfærslur í umræddri frétt á sem birtist á Stöð 2, sunnudaginn 16. október 2011. Fullyrðing fréttamanns um mörg hundruð milljóna króna skuld Tals við Vodafone á sér ekki stoð í raunveruleikanum. Raunveruleg skuld Tals við Vodafone nemur 36 milljónum, sem jafngildir rúmlega tveggja vikna viðskiptum á milli félaganna. Rekstur Tals er traustur og skuldastaða óveruleg.
Eigendur Tals og Vodafone gerðu í vor með sér samning um að sameina félögin. Á þeim tíma voru öll viðskipti á milli félaganna í fullum skilum. Á meðan beðið var ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins varð til ágreiningur á milli félaganna um ákvæði í samningum þeirra á milli. Ákveðið var að taka þann ágreining fyrir að fenginni niðurstöðu frá Samkeppniseftirlitinu.
Samkeppniseftirlitið hafnaði samruna félaganna 5. október síðastliðinn með þessum orðum: “Tal er mikilvægur keppinautur bæði Símans og Vodafone” og hefur „einbeitt sér að því að veita Símanum og Vodafone verðsamkeppni og boðið neytendum upp á ýmsar nýjungar.” Stjórnendur og eigendur beggja félaga hafa nú farið yfir öll sín mál og sett í viðskiptalegan farveg og hafa fullan hug á að halda áfram áralöngum og farsælum viðskiptum.
Sérstaða Tals felst í því að fyrirtækið kaupir fjarskiptaþjónustu, svo sem heimasíma, sjónvarp, nettengingar og farsíma, í magninnkaupum hjá Vodafone og Símanum og endurselur til viðskiptavina sinna á betra verði en býðst annarsstaðar. Tal selur meira en 60 þúsund þjónustuáskriftir til sinna viðskiptavina í dag og er stærsti viðskiptavinur bæði Vodafone og Símans.
Viðskiptavinir Tals þurfa ekki að hafa áhyggjur af neinni truflun á fjarskiptaþjónustu líkt og gefið var í skyn í fyrrnefndri frétt.
Virðingarfyllst,
Viktor Ólason, forstjóri Tals