Ég átti
svona poppvél sem Elko var að selja einhverntíma. Án þess að hika get ég fullyrt að þetta er versta raftæki sem ég hef nokkurntíma átt.
Mig grunar að ég hafi kannski verið á svipuðum stað og þú: aðeins of mikil fyrirhöfn að poppa í potti en örbylgjupoppið er engin samkeppni þegar kemur að gæðum. Þetta voru einmitt ástæðurnar fyrir því að ég freistaðist (ó hvers vegna) til að kaupa poppvél. Ef ég hefði vitað hvað væri í þann mund að henda mig hefði ég frekar kosið að vaska upp kámuga smjörpotta til eilífðarnóns.
Þessi poppvél, eins og margar aðrar poppvélar, grundvallaðist á einhverjum einföldum mekanisma sem notar heitt loft til að hita poppið á meðan það snýst í hringi. Stóra loforðið var svo að það þurfi enga olíu til að sprengja kjarnana, sem aftur þýddi að ekki þyrfti að þrífa tækið og ætti að einfalda allt. Þetta var svo sannarlega rétt.
En poppið sem kom út úr þessu... Reyndar get ég nú mörgum árum seinna sagt að þessi reynsla gerði mig að betri manni - en hvað um það. Stóri lærdómurinn hér var að popp sem er ekki steikt uppúr smjöri eða olíu er ekki popp. Það er heldur ekki matur og það er heldur ekki eitthvað sem menn geta yfir höfuð borðað. Þetta var í besta lagi dýrafóður fyrir húsdýr sem maður elskar ekki. Ekkert salt, poppkrydd, mismunandi vörumerki eða reddingar með olíu gátu bjargað óhamingjunni sem kom út úr þessari vél.
Ég er alls ekki einhver dannaður maður sem borðar bara eitthvað fínerí. Ég hef borðað úr ruslagámum og myndi ekki detta í hug að henda niðursoðnum túnfiski sem er kominn nokkra mánuði yfir tímann. En ég hefði aldrei getað borðað þetta popp. Það var þurrt og ógeðslegt og ég get ekki einu sinni lýst því. Ef ég hefði ekki þessa reynslu myndi ég ekki trúa því að hægt væri að búa til eitthvað svona hryllilegt úr afurð sem fyrirfinnst í jurtaríkinu.
Ef þetta er svo ekki nóg þá er versti kaflinn eftir; það var bókstaflega engin leið til að stjórna eða beina poppinu sem kom út ofaní skálina. Þegar poppið byrjaði að fljúga út um allt eldhúsið minnti þetta ekkert á þá notalegu rómatík sem poppið færði áður inn í líf mitt. Þess í stað var ég hlaupandi á eftir poppeldflaugum sem skutust í allar áttir, á hnjánum að teygja mig undir ísskápinn eftir ósprungnum maískjörnum og á sama tíma að reyna hvað ég gat til að stöðva þessi ósköp.
Það er e.t.v. óþarfi að taka það fram að ég henti þessu martraðatæki beint í ruslið, enda væri mikið níðingsverk að "endurnýta" svona fánýti.
Alla vega, ég leit á það sem siðferðilega skyldu að segja frá reynslu minni. Það gæti verið að það séu til einhverjar betri vélar, en af fullkominni góðvild - farðu varlega.