Þú finnur fullt af upplýsingum um húsnæðisbætur á vef Íbúðalánasjóðs,
Húsbót.
Þar er m.a.:
"Á ég rétt á húsnæðisbótum?
Til að eiga rétt á húsnæðisbótum þarf að uppfylla nokkur skilyrði. Frá þessum skilyrðum eru þó undanþágur, t.d. fyrir námsmenn og fólk sem býr á sambýlum eða dvelur tímabundið á áfangaheimilum. Þá eru einnig sérstakar undanþágur fyrir þá sem dvelja fjarri lögheimili vegna veikinda eða tímabundið vegna vinnu.
Fyrsta skilyrðið er að vera búsettur í íbúðarhúsnæðinu og eiga þar lögheimili.
Annað skilyrði er að umsækjandi sé 18 ára eða eldri.
Þriðja skilyrðið er að um sé að ræða íbúðarhúsnæði hér á landi sem hafi að lágmarki eitt svefnherbergi ásamt séreldhúsi eða séreldunaraðstöðu og sérsnyrtingu og baðaðstöðu.
Fjórða skilyrðið er að umsækjandi sé aðili að þinglýstum leigusamningi til a.m.k. þriggja mánaða. Þeir sem búa á námsgarði, sambýli, áfangaheimili, eða í húsnæði í eigu ríkis eða sveitarfélags eru undanþegnir því að þinglýsa leigusamningi.
Fimmta skilyrðið er að umsækjandi og aðrir heimilismenn sem eru eldri en 18 ára gefi samþykki sitt til upplýsingaöflunar. Upplýsingar sem sóttar eru til annarra stofnana eru t.d. upplýsingar um tekjur og eignir frá Ríkisskattstjóra, um lögheimili frá Þjóðskrá og um þinglýsingar frá sýslumönnum og sveitarfélögum."
Og svo:
"Skiptir máli hvernig húsnæði ég leigi?
Já. Íbúðarhúsnæðið þarf að uppfylla lágmarksskilyrði, þ.e. eitt svefnherbergi ásamt séreldhúsi eða séreldunaraðstöðu og sérsnyrtingu og baðaðstöðu. Ekki er hægt að sækja um húsnæðisbætur ef um er að ræða atvinnuhúsnæði, samkvæmt fasteignaskrá.
Námsmenn sem taka á leigu herbergi eða íbúð á heimavist eða námsgörðum sem tengjast viðurkenndum menntastofnunum innan hins almenna menntakerfis hafa undanþágu frá þessari reglu og geta fengið húsnæðisbætur fyrir leigu á herbergi.
Það sama á við um sambýli fatlaðs fólks í húsnæðisúrræðum og sambýli einstaklinga á áfangaheimilum."
Svo er spurning hvernig þetta er túlkað:
"Húsnæðisbætur eru ekki greiddar:
a. Ef umsækjandi eða aðrir heimilismenn sem umsókn tekur til eru á sama tíma skráðir til heimilis í öðru íbúðarhúsnæði í annarri umsókn um húsnæðisbætur sem hefur verið samþykkt. Barn yngra en 18 ára getur þó talist heimilismaður hjá báðum foreldrum sínum eða forsjáraðilum.
b. Ef leiguhúsnæði er ætlað til annarra nota en íbúðar eins og t.d. atvinnuhúsnæði, jafnvel þó að það sé leigt út til íbúðar.
c. Vegna leigu á hluta úr íbúð eða einstökum herbergjum.Þó er heimilt að greiða húsnæðisbætur þegar einstök herbergi eru leigð ef um er að ræða:
Sambýli námsmanna á heimavistum eða námsgörðum
Sambýli fatlaðs fólks í húsnæðisúrræðum
Sambýli einstaklinga á áfangaheimilum
d. Ef einhver heimilismanna á rétt á vaxtabótum eru húsnæðisbætur ekki greiddar.
e. Ef einhver heimilismanna er eigandi að leiguíbúðinni eða á ráðandi hlut í félagi sem á viðkomandi íbúð, annaðhvort einn eða með nákomnum fjölskyldumeðlimum.
f. Þegar húsnæðisbætur eru þegar greiddar vegna sama íbúðarhúsnæðis. "