Af vef persónuverndar:
Persónuvernd berst að jafnaði nokkuð af fyrirspurnum varðandi það hvort og þá hvaða viðurlög liggja við því að úthringingar söluaðila ýmiskonar séu framkvæmdar þrátt fyrir að sá sem hringt er í hafi merkt við með rauðum krossi í símaskrá sem merki um að ekki sé heimilt að hringja í viðkomandi.
Af þessu tilefni ber fyrst að nefna að í lögum um fjarskipti nr. 81/2003 er að finna ákvæði í 5. mgr. 46. gr. laganna sem hljóðar svo:
,,Notendur sem nota almenna talsímaþjónustu sem lið í markaðssetningu skulu virða merkingu í símaskrá sem gefur til kynna að viðkomandi áskrifandi vilji ekki slíkar hringingar í símanúmer sitt.”
Póst- og fjarskiptastofnun skal hafa eftirlit með ákvæðum laga nr. 81/2003, skv. 2. mgr. 2. gr. laganna.
Í 16. kafla laganna er m.a. fjallað um hvaða viðurlög gildi við brotum á lögunum (sjá einkum 74. gr. laganna).
Það athugast þó að bannmerking í símaskrá felur eingöngu í sér bann við því að hafa samband við viðkomandi símleiðis í markaðssetningartilgangi. Bannmerking í símaskrá felur því ekki í sér bann við því að senda fólki markpóst.
Hins vegar gilda ákvæði laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga einnig um starfsemi þeirra sem nota skrár í markaðssetningarstarfsemi. Hér að neðan verður fjallað stuttlega um hvernig álitaefni sem þetta varða snúa að lögum nr. 77/2000.
Hér ber einkum að líta til 28. gr. laganna. Ákvæði 2. mgr. 28. gr. laganna hljóðar svo:
,,Hagstofa Íslands skal halda skrá yfir þá sem andmæla því að nöfn þeirra séu notuð í markaðssetningarstarfsemi, en Hagstofa Íslands setur nánari reglur um gerð og notkun slíkra skráa og hvaða upplýsingar skuli koma þar fram í samráði við Persónuvernd. Ábyrgðaraðilar sem starfa í beinni markaðssókn og þeir sem nota skrá með nöfnum, heimilisföngum, netföngum, símanúmerum og þess háttar eða miðla þeim til þriðja aðila í tengslum við slíka starfsemi skulu, áður en slík skrá er notuð í slíkum tilgangi, bera hana saman við skrá Hagstofunnar til að koma í veg fyrir að markpóstur verði sendur eða hringt verði til einstaklinga sem hafa andmælt slíku. Persónuvernd getur heimilað undanþágu frá þessari skyldu í sérstökum tilvikum.”
Í 4. mgr. 28. gr. laganna segir:
,,Skylt er að nafn ábyrgðaraðila komi fram á áberandi stað á útsendum markpósti og hvert þeir sem andmæla því að fá slíkan markpóst og marksímtöl geti snúið sér. Viðtakandi markpósts á rétt á að fá vitneskju um hvaðan þær upplýsingar koma sem liggja úthringingu eða útsendingu til grundvallar. Þetta gildir ekki um markaðssetningu ábyrgðaraðila á eigin vöru og þjónustu sem notar eigin viðskiptamannaskrár, enda beri útsent efni með sér hvaðan það kemur. Ef markpóstur er sendur með rafrænum hætti er skylt að fram komi á ótvíræðan hátt um leið og hann er móttekinn að um slíkan póst sé að ræða.”
Af þessu má ráða að þeir sem skrá sig á bannskrá Hagstofunnar eiga að vera öruggir fyrir því að fá hvorki sendan markpóst né að hringt verði til þeirra (sbr. 2. mgr. 28. gr.). Þetta úrræði hentar vel fyrir þá sem vilja aldrei vera ónáðaðir með markpósti eða marksímtölum. Hagstofa Íslands heldur utan um bannskrá þessa og ber því að hafa samband við Hagstofuna til að fá sig skráðan á slíka skrá.
Ákvæði 4. mgr. 28. gr. laganna tryggir hins vegar að sá sem fær markpóst eða marksímtal frá ákveðnum aðila geti með auðveldum hætti haft samband við þennan tiltekna aðila og óskað eftir því að fá ekki framvegis símtal eða póst í markaðssetningartilgangi frá þeim aðila. Viðkomandi fyrirtæki þarf því að halda skrá yfir þá sem óska eftir því að fá framvegis ekki markpóst eða marksímtal. Þetta úrræði tryggir þannig að viðkomandi verður ekki ónáðaður með markpósti eða marksímtali frá þessu tiltekna fyrirtæki í framtíðinni en kemur eðli málsins skv. ekki í veg fyrir markpóst eða marksímtöl frá öðrum aðilum.
Kvartanir vegna hugsanlegra brota á ákvæðum laga nr. 81/2003 ber að senda til Póst- og fjarskiptastofnunar. Kvartanir vegna hugsanlegra brota á ákvæðum laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga má beina til Persónuverndar. Þarf stofnuninni þá að berast kvörtun og nánari málsatvikalýsing. Eyðublað fyrir kvörtun er að finna á heimasíðu stofnunarinnar (
www.personuvernd.is) undir hnappinum ,,Umsóknir og önnur eyðublöð”.
Eins og má ráða hér að ofan eru þau ákvæði laga sem fjalla um markaðssetningarstarfsemi nokkuð flókin og ekki til hægðarauka að fjallað sé um slíkt í ákvæðum bæði laga um fjarskipti sem og lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Hins vegar hefur Persónuvernd vakið athygli á þessu og mun leggja áherslu á að ákvæði þessi verði einfölduð og um leið gerð skilvirkari, t.d. með því að fella þau inn í einn og sama lagabálkinn.