Ég held að fólk sem finnst þetta ekkert merkilegt sé bara ekki alveg búið að fatta hve vel er fylgst með því, né hvernig er hægt að nota þessi gögn og í hvaða tilgangi.
Nú er ég nýlega búinn að setja upp "Ghostery" í Firefox, sem blockar alla trackera, en sýnir mér um leið hvaða trackera voru blockeraðir. Eftir örlitla notkun þá sé ég að nánast allar vefsíður sem ég nota (nema vaktin.is
) eru með líklega 20 trackera og marga þá sömu, s.s. Google Adsense.
Með því að vensla saman þessar tracker upplýsingar út frá ip tölu, smákökum o.fl. á miðlægum stað er hægt að "reconstructa" alla þína netnotkun. Þannig getur einhver hjá NSA, FBI eða álíka fengið prófíl um allt sem þú skoðar, alla tölvupósta þína, allt sem þú hefur skrifað, o.s.frv.
Jafnvel þó engir trackerar eru að fylgjast með þér þá fara IP pakkar um internetið sem PRISM "grípur" frá bakbeinum í BNA, setur í grunninn og getur venslað aftur saman við IP tölu þína, Google accountinn þinn, og Skype notkun.
Þar sem nær öll internetnotkun Íslands fer annaðhvort til BNA eða Bretlands (sem er með álíka program og deilir þeim upplýsingum með BNA) þá er fylgst með öllum íslendingum.
Kannski er þér sama núna, en eftir nokkur ár eða áratugi þegar þú vilt taka þátt í stjórnmálum eða kannski ferðast til BNA þá gæti komið babb í bátinn, því NSA/FBI eiga ítarlegt yfirlit yfir allt þitt "online" líf og atferli, mörg ár eða áratugi aftur í tímann.
Jafnvel þó þér sé skítsama um sjálfan þig, þá þarftu að íhuga það að þetta snertir okkur öll. Hvernig hefur þú fullvissu um að ekki sé fylgst með öllum alþingismönnum okkar, forsætisráðherra, o.s.frv? Hvernig veistu hvort NSA/FBI noti ekki þessi gögn til þess að kúga stjórnmálamenn Íslands, þá sömu og setja lög á Íslandi sem gætu snert þig?
Ég hef t.d. tekið þátt í pólitískum umræðum í mörg mörg ár á internetinu, undir dulnefni, en ekki undir duldri IP tölu né hafa gögnin verið dulkóðuð. Mér datt þetta ekki í hug. En núna veit ég það að hatrömm gagnrýni mín gagnvart stefnu BNA er núna geymd og skrásett að eilífu hjá NSA, og auðvelt er að vensla þetta allt saman við raunverulegt nafn mitt. Næst þegar ég heimsæki BNA kann ég að vera handtekinn eða mér synjað um inngöngu í landið.
Líklegra er að við þurfum að lifa með þessu frekar en að það verði slökkt á þessu (hvenær hefur þú fullvissu um að það sé búið að slökkva alfarið á þessu?). Dulkóðunartækni mun án efa verða mun vinsælli núna. Fólk hefur fengið hressilega raunveruleikasprautu frá honum Snowden hvað persónuvernd á internetinu varðar.