Höfundalög, 59. gr. a., sett inn 2010:
Að því tilskildu að fullnægt sé öðrum þeim skilyrðum lögbanns, sem greind eru í lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., geta einstakir rétthafar eða samtök þeirra fengið lagt lögbann við því að þjónustuveitandi miðli gögnum sem þjónustuþegi lætur í té um fjarskiptanet, óháð því hvort þjónustuveitandi beri ábyrgð vegna miðlunar eða sjálfvirkrar, millistigs- eða skammtímageymslu gagna. Enn fremur verður lögbann lagt við því að þjónustuveitandi hýsi gögn sem látin eru í té af þjónustuþega, óháð því hvort þjónustuveitandi beri ábyrgð á gögnunum.
Athugasemdir við lagabreytinguna, frá nefndinni sem samdi:
Tilgangur ákvæðisins er fyrst og fremst að eyða mögulegum vafa um hvort lögbanni verður beint gegn fjarskiptafyrirtækjum vegna miðlunar, skyndivistunar og hýsingar gagna í þeim tilvikum þegar um er að ræða meint brot þjónustuþega á ákvæðum höfundalaga. Í íslenskum rétti hefur verið miðað við að lögbann verði einungis lagt við tilteknum athöfnum sem eru taldar ólögmætar í sjálfu sér. Vegna orðalags ákvæða 12., 13. og 14. gr. laga nr. 30/2002 er mögulegt að vafi yrði talinn leika á því hvort miðlun, skyndivistun eða hýsing þjónustuveitanda væri ólögmæt athöfn í sjálfu sér. Það gerir réttarvörslu rétthafa mun auðveldari ef skýrt er að hann geti lagt lögbann við athöfnum milliliða. Ekki verður séð að neinir lögverndaðir hagsmunir eigi að standa gegn því að sett verði ákvæði af því tagi sem hér er lýst, enda er heimild til lögbanns byggð á þeirri grundvallarforsendu að fyrir hendi sé réttarbrot af hálfu þjónustuþega sem sá sem fer fram á lögbann þyrfti eftir sem áður að sýna fram á.
...
Hins vegar þykir rétt að kveða skýrt á um rétt höfunda og annarra rétthafa til að beina kröfu um lögbann að þjónustuveitanda, t.d. fjarskiptafyrirtæki, svo að ekki fari á milli mála að slíkur réttur sé fyrir hendi samkvæmt íslenskum lögum. Skiptir í því efni máli að skv. 1. mgr. 11. gr. höfundalaga er réttur til eintakagerðar af verki til einkanota ekki takmarkaður við það að upphaflegt eintak, sem eintak er gert eftir, sé löglegt. Því er ekki víst að á grundvelli gildandi laga kæmust hérlendir dómstólar að sömu niðurstöðu og dómstólar í ýmsum nágrannaríkjum, t.d. í Danmörku, að lögbann verði lagt við því að þjónustuveitandi miðli gögnum, jafnvel þótt fyrir liggi vísbendingar um ólögmætt athæfi af hálfu þjónustuþega.
Þetta flýgur í gegn. Lögbannsheimildir sem hafa verið notaðar grimmt í DK, virðast vera til staðar hér, mörgum að óvöruðum.