Mikilvægi þjónustustigs tölvuverslana

Allt utan efnis
Skjámynd

Höfundur
izelord
has spoken...
Póstar: 181
Skráði sig: Þri 24. Sep 2002 17:29
Reputation: 16
Staðsetning: Hafnarfjörður
Hafðu samband:
Staða: Ótengdur

Mikilvægi þjónustustigs tölvuverslana

Pósturaf izelord » Fim 21. Mar 2013 11:17

Sæl!

Ákvað að stofna nýjan þráð eftir að hafa lesið "er tölvulistinn að reyna að svindla á mér" þráðinn. Vildi aðeins viðra mína hugmyndafræði bak við mikilvægi þjónustustigs verslana. Athugið að ég er á engan hátt að taka afstöðu til fyrri þráðar, heldur er þetta sjálfstæður þráður og þó ég setji fram nokkur dæmi þá er þessi þráður ekki hugsaður sem söfnun á skítkasti eða dæmisögum gagnvart tölvuverslunum. Þess vegna bið ég um að slíku verði haldið í lágmarki.

Á þeim tímapunkti er ég þarfnast nýs búnaðar horfi ég fyrst og fremst til innlends markaðar. Ástæðan er sú að ég treysti á þjónustu ef upp koma vandamál. Þá treysti ég á að ábyrgðarhlutverki verði sinnt og að mér verði leiðbeint varðandi vöruúrval komi til þess að ég ekki sé búinn að móta mér skoðun á eigin þörf þegar kemur að innkaupum. Verðlagið hér á landi er þess eðlist að þetta þjónustu-, ábyrgðar- og leiðbeinandahlutverk verður eitthvað það mikilvægasta í mínum augum þegar kemur að vali á tölvuverslun. Þegar ég er að kaupa inn fyrir miklar fjárhæðir hætta stakir þúsundkallar að skipta máli enda oftast hægt að ná þeim til baka með afsláttum svo ekki sé skilinn undan annar kostnaður (tími, bensín osfrv).

Ég lít á sjálfan mig sem mikilvægan viðskiptavin og legg upp úr því að tölvuverslanir geri sér grein fyrir því með því að láta þá vita af fyrri innkaupum og þess háttar. Glöggir menn sjá að ég hef verið skráður á vaktinni nánast frá upphafi og þó ég tjái mig ekki mikið hér er ég þó mjög innviklaður í heim tölvutækninnar. Þá hef ég bæði reynslu af störfum á tölvuverkstæðum, bilanagreiningu, uppsetningum og þar fram eftir götunum. Oftast þjónusta ég mig sjálfur en stundum kemur fyrir að einstakir tölvuíhlutir bili og skiptir viðmót verslunarinnar í þeim málum þá gríðarlegu máli. Ég er langt frá því að vera frekur og vel frekar að leyfa tölvuverslunum að sýna það í verki hvort þjónustan hjá þeim sé góð eða slæm, sem sýnir að tölvuverslanir ættu stundum að huga að lágværari viðskiptavinunum.

Í upphafi, í kringum síðustu aldamót, átti ég mest viðskipti við Tölvulistann, keypti tölvuíhluti hjá þeim og var langt frá því að vera stór viðskiptavinur. Maður var einfaldlega tölvunörd að stíga sín fyrstu skref í þessum heimi og ekki með mikið fé á milli handanna. Þá kom upp atvik sem rennur mér seint úr minni. Netkerfi voru á þessum tíma að verða töluvert vinsæl á meðal unglinga og bílskúrsLAN var klárlega málið um helgar. Svokallaðir "höbbar" og "svissar" voru rándýrir og oftast voru uppsetningarnar með 10Mbit Coax tengingum með tilheyrandi T-tengjum og terminatorum. Einn daginn komu á sjónarsviðið dual netkort sem buðu bæði upp á Coax og RJ-45 tengi. Þvílíka byltingin hugsaði maður með sér en áttaði sig svo fljótlega á því að aðeins var um að ræða 10Mbit netkort þó RJ-45 tengingin væri notuð. Það sem var því sammerkt með öllum netkortum var að ef Coax tengi var á því, þá væri aðeins 10Mbit hraði. Þetta var einföld staðreynd. Einn daginn kom upp sú staða að ég þurfti að uppfæra 10Mbit RJ-45 netkortið mitt enda orðinn leiður á takmörkuðum hraða og lagði því leið mína í Tölvulistann. Í viðræðum mínum við starfsmann kom í ljós að þeir voru að fá Coax+RJ-45 netkort sem voru 100Mbit. Að hans sögn. Eins og dæmigert ungmenni vissi ég betur og var fljótur að leiðrétta þetta en sölumaðurinn stóð fastur á sínu. Hann var 100% á því að um væri að ræða 100Mbit netkort. Verandi töluvert yngri og hugsanlega óreyndari ákvað maður að taka þessum orðum sem heilögum sannleik og var netkortið fljótverslað. Að nokkrum dögum liðnum var sannleikurinn ljós, aðeins var um að ræða 10Mbit netkort. Ég varð fjúkandi reiður og átti ekki viðskipti við Tölvulistann í mjög, mjög langan tíma eftir þetta.

Ætli það séu ekki 13 ár síðan þetta var en atvikið litar enn viðskipti mín við verslunina. Þetta dæmi fyrir mér sýnir hversu mikilvægt það er að hugleiða að viðskiptavinurinn hafi rétt fyrir sér. Að taka mark á ungmennum og ganga alla leið með málið. Ég fékk að skila umræddu netkorti og verslunarstjórinn lofaði mér 10% afslætti af næstu viðskiptum en ég nýtti hann aldrei. Unglingur er ekki að versla neitt sérstaklega oft og þó velvild verslana sé mikilvægt þá þarf stundum að fara út fyrir kassann í þeim efnum. Kúki verslun upp á bak þá er ekki víst að kúnninn sé sáttur með 10% afslátt, né 50% eða 80%. Er hann eitthvað frekar líklegur til að koma aftur? Afsláttur er bara einhver prósenta sem einhver starfsmaður getur stimplað inn í kassa. Hvað ef verslunarstjórinn fer út í búð og kaupir konfektkassa eða miða í bíó eða leikhús? Það sýnir miklu meira "goodwill" heldur en einhverjar prósentutölur. Ég hef séð nokkur fyrirtæki hérlendis taka upp á slíkum afsökunaraðgerðum þegar þau misstíga sig og það hefur reynst gríðarlega vel.

Sem andlit fyrirtækis skiptir framkoma þín gríðarlegu máli. Kennitöluflakk buy.is hefur verið í fjölmiðlum og nóg til af þráðum um það hér á vaktinni en ég tók afstöðu strax frá upphafi að eiga ekki viðskipti við þá verslun. Þó um væri að ræða hugsanlega löglegan gjörning þá fannst mér hann siðlaus og velti því sjálfkrafa upp hvort viðkomandi myndi sinna þjónustu við mig af kostgæfni eður ei. Þá hefur það auðvitað sitt að segja að geta ekki átt face-to-face samskipti við starfsmann viðkomandi verslunar og þurfa að stóla á rafræn samskipti. Leiðir þetta að næstu dæmisögu sem snýr að Tölvuvirkni. Verslun í Kópavogi sem var nálægt heimili mínu, bauð upp á samkeppnishæf verð og þjónustan var frábær í þau skipti sem ég þurfti á að halda. Til að mynda var skjákortum skipt út samdægurs þrátt fyrir að bilun hefðu ekki verið leidd í ljós og mjög mikill afsláttur (um 40%) gefinn af þeim kaupum sem voru gerð þann daginn. Viðskiptavinurinn hafði einfaldlega rétt fyrir sér. Bjargaði það væntanlegu bílskúrsLANi þá helgina og varð það til þess að ég beindi öllum viðskiptum sem og vinum að þeirri verslun. Líklega hafa viðskipti mín þar verið um eða yfir milljónina áður en annað atvik varð til þess að ég snarhætti. Allir þekkja hrunið og líklega varð Tölvuvirkni illa út í því.

Alls konar mótmæli hafa verið haldin og fjölmargir tekið þátt í þeim þó mikill munur sé á ofsa mótmælenda. Var ég ekki undanskilinn og mætti nokkur skipti á Austurvöll. Nú minnir mig að hann heiti Björgvin sem fyrir mér var og er andlit Tölvuvirkni og rennur mér seint úr minni sá ofsi og það framferði sem hann hafði fyrir framan Alþingishúsið. Beindist ofsinn fyrst og fremst gagnvart þeim lögreglumönnum sem höfðu þarna skyldu að gegna og fyrir mér var hegðun hans slík að ég velti fyrir hvort bólstrað herbergi væri viðeigandi. Auðvitað var hann ekki einn um slíka hegðun en nóg þótti mér um og hef ekki átt viðskipti við þá verslun síðan. Fyrir mér skiptir framkoma máli og ef aðili hegðar sér á þennan hátt gagnvart óviðkomandi fólki, hvernig get ég þá búist við ásættanlegri framkomu gagnvart mér seinna meir? Yfirvegun og kurteisi eru dygðir sem eru einna mikilvægastar í samskiptum við viðskiptavini og þarna var mikill skortur á slíku.

Viðskiptavinir geta margir hverjir verið mjög hliðhollir einni verslun og þótt önnur bjóði betra verð þarf ekki að vera að þeir skipti um verslun. Að vera með öll viðskipti á einum stað er þægilegt, sérstaklega ef um er að ræða mikið magn. Tölvutek hefur síðastliðin ár verið mín tölvuverslun og hef ég eytt þar milljónum, jafnt í eigin nafni sem og annarra. Þeir hafa oft geta þjónustað mig samdægurs og í ýmsum tilfellum án endurgjalds. Þeir hafa hæfilegt vöruúrval, samkeppnishæf verð og ef starfsmenn eru ekki vissir um einhverja vöru þá leita þeir uppi slíkar upplýsingar til að geta gefið skýrt svar. Fyrir stuttu vantaði mig þó netbúnað sem var ekki til hjá þeim og þurfti ég að leita til Tölvulistans þar sem þetta vantaði samdægurs. Keypti ég tvo routera og var sáttur með viðskiptin til að byrja með. Fljótlega kom í ljós ákveðinn galli með þessa routera sem hafði ekki beint áhrif á notagildi þeirra. Þetta var leiðinlegur galli en ég komst hjá honum með þeirri notkun sem þeir voru í. Þegar ábyrgðartímabilinu var að ljúka breyttist notkunin þó og gallinn varð of leiðinlegur til að geta haldið notkuninni áfram. Ég framkvæmdi bilanagreiningu og fór í Tölvulistann með routerana á Laugardegi. Þvílík mistök. Í ljós kom að verkstæðið þeirra er "sjálfstæð eining" sem er í sama húsi og á sömu hæð. Þar sem verkstæðið er lokað á laugardegi gátu starfsmenn verslunarinnar ekki tekið við búnaðinum. Ég átti ekki til orð, enda þarna verið að halda sig inni í þvílíkt litlum kassa þegar kemur að þjónustuhlutverkinu gagnvart viðskiptavininum. Fyrir mér er þetta sama fyrirtækið og þó almennir starfsmenn geti kannski ekki svarað fyrir slíkar verklagsreglur þá spurði ég þó hvernig hefði verið ef ég hefði verið að koma frá Höfn á Hornafirði? Ábyrgðin rynni út á sunnudegi og því væri hún útrunnin er ég kæmi aftur. Svörin voru að þá væri nú hægt að "redda málunum". Næsta spurning var þá auðvitað, en hvað ef ég er frá Hvolsvelli? En Selfossi? En Hveragerði? En Mosfellsbæ? Hvar á að draga línuna? Afhverju er ekki hægt að gera þetta fyrir mig svo ég þurfi ekki að koma aftur? Auðvitað var fátt um svör.

Næsta þriðjudag var komið með routerana og tók verkstæðið við þeim og hélt næstu daga í bilanagreiningu. Greining leiddi ekkert óeðlilegt í ljós varðandi virkni routeranna þrátt fyrir ítarlegar upplýsingar um hvernig mætti endurskapa ákveðna villumeldingu. Mér leið aftur eins og unglingnum með netkortið og ákvað að kanna málið betur, hvort um væri að ræða einhverja skissu af minni hálfu. Sem betur fer var ég ekki rukkaður um skoðunargjald þar sem aðeins klukkutíma seinna hafði mér tekist að framkalla villumeldinguna. Tók ég þá bilanagreiningu á vídjó og sendi Tölvulistanum og spurði hvað þeir ætluðu að gera í málinu. Fékk ég það svar að koma aftur með routerana því þetta þyrfti að skoða nánar. Nokkrum vikum eftir laugardaginn góða var ég aftur kominn með routerana í hendurnar ásamt blaði frá Tölvulistanum um að engin bilun hefði fundist. Nú er ábyrgðin auðvitað löngu útrunnin, routerarnir ónotaðir í kassa inni í skáp og nokkuð ljóst að maður getur verið óhress með þann "séns" sem maður gaf Tölvulistanum umfram Tölvutek. Þetta er alls ekki dýr búnaður, við erum bara að tala um nokkra þúsundkalla og það er alveg ljóst á þeim upptökum sem þeir fengu að routerarnir eru gallaðir enda sáu þeir sig knúna til að óska aftur eftir þeim í greiningu, sem fyrir mér er ákveðin viðurkenning á vandamáli með búnaðinn. Miðað við álagningu á tölvubúnaði í dag hefði þarna verið hagkvæmara fyrir verslunina að gefa viðskiptavininum "the benefit of the doubt" í stað þess að fara eftir litla þjónustukassanum sínum. Ég tími alla vega ekki að eyða bensíni og tíma í að eltast frekar við vandamálið, slíkt svarar ekki kostnaði fyrir mig. Ljóst er að ég tími þá heldur ekki að eyða tíma og bensíni í að eltast við mögulega örlítið lægri verð hjá Tölvulistanum næstu árin.

Dæmin sem ég nefndi eiga það sameiginlegt að vera pínulítil og um litlar og jafnvel engar fjárhæðir að ræða. Viðbrögð tölvuverslana og hegðun starfsmanna og/eða eigenda út á við skipta það miklu máli í þessum dæmum að þau verða af miklum viðskiptum og ég er bara einn viðskiptavinur. Hvað með alla hina? Hugsanlega eru margir jafn hliðhollir og ég, sem haldast í viðskiptum við sömu verslunina í gegnum árin. Takið eftir því hvað ég nefni fáar verslanir. Til að vera sanngjarn þá hef ég líka átt lítilsháttar viðskipti við Kísildal og fengu þeir prik í kladdann og eru í öðru sæti á eftir Tölvutek. Ef ekki væri fyrir það sjónarmið mitt að halda öllum viðskiptum á einum stað (sem og minna vöruúrvals hjá þeim á sínum tíma) myndu þeir njóta góðs af þeirri góðu þjónustu sem þeir veittu mér.

tldr; Ef starfsmenn tölvuverslana vilja vera með góðan rekstur þurfa þeir virkilega að hugsa út fyrir boxið gagnvart viðskiptavinum sínum. Slíkt er vel þegið og borgar sig mjög til lengri tíma litið. Lítið þarf til að móðga viðskiptavininn og getur það haft kostnaðarsamar afleiðingar.



Skjámynd

lukkuláki
Besserwisser
Póstar: 3089
Skráði sig: Fös 30. Nóv 2007 19:06
Reputation: 65
Staða: Ótengdur

Re: Mikilvægi þjónustustigs tölvuverslana

Pósturaf lukkuláki » Fim 21. Mar 2013 11:43

Ljómandi góð lesning og þarna er ég sammála þér svona nánast í einu og öllu.


If you think patience is a virtue, try surfing the net without high speed Internet.

Skjámynd

GuðjónR
Stjórnandi
Póstar: 16491
Skráði sig: Fim 29. Ágú 2002 18:46
Reputation: 2105
Staðsetning: Hérna
Hafðu samband:
Staða: Ótengdur

Re: Mikilvægi þjónustustigs tölvuverslana

Pósturaf GuðjónR » Fim 21. Mar 2013 11:44

Ég las þetta allt saman, vel skrifað og ég er 100% sammála skoðunum þínum.




capteinninn
Of mikill frítími
Póstar: 1725
Skráði sig: Sun 12. Sep 2004 16:02
Reputation: 20
Staða: Ótengdur

Re: Mikilvægi þjónustustigs tölvuverslana

Pósturaf capteinninn » Fim 21. Mar 2013 12:34

Góð lesning og manni finnst oft ótrúlegt hvernig búðir hugsa ekki um þessa liði þegar kemur að þjónustu við viðskiptavini að það þarf að hafa þá ánægða, ALLTAF.

Það munar ekkert um það að fara "the extra mile" fyrir starfsfólk og þegar þú gerir það muntu fá tryggan viðskiptavin sem mun jafnvel borga meira hjá þér einfaldlega vegna þjónustunnar sem hann fær hjá þér.

Ég vinn í búð (fatabúð reyndar en ekki tölvubúð) og ég hef alltaf lagt mig fram um að reyna að hjálpa kúnnanum á sem bestan hátt jafnvel þótt ég þurfi að gera eitthvað sem krefst þess að ég gangi lengra en starfslýsingin mín segir mér að gera, við að gera þetta hef ég líka eignast þónokkra dygga viðskiptavini sem koma alltaf aftur og aftur því þeir geta verið öruggir um að ég muni hjálpa þeim að ná þeim niðurstöðum sem þeir vilja (í tilfelli vinnunnar minnar væri það að finna föt sem honum líkar og að fötin líti vel út á honum). Mér finnst líka algjört prinsipp að ljúga ekki að viðskiptavininum, það er fljótt að komast upp og þá missirðu traustið sem þú ert búinn að skapa þér.

Þegar ég fór að vinna í búð fékk ég þau ráð frá föður mínum að þegar maður er í einhverju þjónustustarfi á maður alltaf að hugsa um þriðju söluna, maður er alltaf að leitast eftir að fá fólk aftur og aftur. Jafnvel þótt maður selur þeim kannski minna í eitthvað skiptið því maður er ekki að reyna að pranga einhverju dóti á hann sem hann vill ekki fá þá kemur hann aftur og aftur og aftur. 10 sölur upp á 10 þúsund eru auðvitað miklu meira virði en 1 sala upp á 50 þúsund.




J1nX
vélbúnaðarpervert
Póstar: 920
Skráði sig: Fim 15. Mar 2007 12:18
Reputation: 28
Staða: Ótengdur

Re: Mikilvægi þjónustustigs tölvuverslana

Pósturaf J1nX » Fim 21. Mar 2013 13:04

frábær lesning og er hjartanlega sammála þér í öllu sem þú tekur fyrir þarna..
ég versla eingöngu við Tölvutækni einungis útaf þeirri frábæru þjónustu sem þeir veita mér,
jú að vísu vinnur kunningi minn þar og gott að sjá kunnuglegt andlit en það er ekki allt.
þeir hafa þurft að þjónusta mig dálítið síðustu mánuði (hitt og þetta að bila og svona) og alltaf hef ég fengið frábæra þjónustu sem skiptir mig mestu máli.



Skjámynd

beggi90
Gúrú
Póstar: 529
Skráði sig: Mið 15. Okt 2008 21:02
Reputation: 34
Staða: Ótengdur

Re: Mikilvægi þjónustustigs tölvuverslana

Pósturaf beggi90 » Fim 21. Mar 2013 13:10

Virkilega áhugavert að lesa þetta.



Skjámynd

Steini B
Vélbúnaðarníðingur
Póstar: 369
Skráði sig: Mið 02. Feb 2011 21:59
Reputation: 12
Staðsetning: í bjórbaði
Staða: Ótengdur

Re: Mikilvægi þjónustustigs tölvuverslana

Pósturaf Steini B » Fim 21. Mar 2013 13:47

Flottur þráður og vel skrifuð grein...

hannesstef skrifaði:Þegar ég fór að vinna í búð fékk ég þau ráð frá föður mínum að þegar maður er í einhverju þjónustustarfi á maður alltaf að hugsa um þriðju söluna, maður er alltaf að leitast eftir að fá fólk aftur og aftur. Jafnvel þótt maður selur þeim kannski minna í eitthvað skiptið því maður er ekki að reyna að pranga einhverju dóti á hann sem hann vill ekki fá þá kemur hann aftur og aftur og aftur. 10 sölur upp á 10 þúsund eru auðvitað miklu meira virði en 1 sala upp á 50 þúsund.

Nákvæmlega sömu ráð og ég fékk frá pabba mínum, og ég er mjög sammála þessu.



Ég byrjaði að versla við Att 2004 og versla þar ennþá
Síðan þá hef ég beint öllum sem ég þekki á þá búð og versla mestan tölvubúnað minn þar

Man bara eftir að hafa farið 3svar þangað með gallaðar vörur og aldrei vesen
Eitt af því var varaaflgjafi, ég fann ekki nótuna en þetta var svo augljós galli að honum var bara skipt út

Einu sinni var ég að fara í bæinn (bý útá landi) og var heldur seinn á ferðinni
Klukkan var alveg að verða 18:00 og ég var enn á leiðinni svo ég heyrði í þeim hvort það væri möguleiki á að bíða eftir mér í 10-15 mín. "Jájá, minnsta mál"
Svo er tekið á móti manni brosandi þótt maður sé að halda honum lengur í vinnunni... :happy



Skjámynd

rapport
Kóngur
Póstar: 7500
Skráði sig: Mán 27. Apr 2009 13:07
Reputation: 1163
Staða: Ótengdur

Re: Mikilvægi þjónustustigs tölvuverslana

Pósturaf rapport » Fim 21. Mar 2013 14:15

Einn flottasti pistill sem ég hef lesið hérna á Vaktinni.

Spurning um að hafa lokaðann flokk fyrir eðalefni og þá er hægt að flytja svona þræði þangað inn til varanlegrar geymslu ;-)

Svona Archive - Þekkingarbrunnur sem væri góð lesning fyrir alla.

Það mundi jafnvel auka áhuga fólks hérna til að komameð fræðandi og leiðbeinandi innlegg.



Skjámynd

Viktor
Internetsérfræðingur
Póstar: 6794
Skráði sig: Mán 04. Apr 2005 11:01
Reputation: 940
Staðsetning: https://notendur.hi.is/vjh2/
Hafðu samband:
Staða: Ótengdur

Re: Mikilvægi þjónustustigs tölvuverslana

Pósturaf Viktor » Fim 21. Mar 2013 14:49

Glæsileg lesning.
Hef lent í ýmsu svipuðu yfir árin.

Minn topplisti af verslunum hingað til, ekki í sérstakri röð, eru eftirfarandi:

Tölvutækni
Att
Tölvutek

Mér finnst ég alltaf fá sama góða viðmótið og þægilegheitin þegar ég mæti á þessa staði.
Ég nenni ekki að pæla í að fara eitthvað annað til að spara mér 5-10% af verðinu, ég geng yfirleitt bara inn og versla.

Án þess að ég fari nánar út í það, þá hef ég ekki áhuga á því að versla frekar við Tölvuvirkni og Tölvulistann.


I wish I was cool enough to not care how much I care about pretending not to care about things


Macbook Pro 13" M2 16GB 512GB

Ryzen 3600X 2070S 16GB

Skjámynd

valdij
Ofur-Nörd
Póstar: 295
Skráði sig: Fim 03. Sep 2009 15:31
Reputation: 6
Staða: Ótengdur

Re: Mikilvægi þjónustustigs tölvuverslana

Pósturaf valdij » Fim 21. Mar 2013 14:59

Góður pistill!

Ég einmitt er frekar tilbúinn að borga meira ef ég veit ég kem alltaf að góðri þjónustu. Ég eins og þú hef skipt um staði gegnum tíðina en eins og staðan er núna versla ég ávallt í Tölvutek, alltaf fengið fyrirmyndar þjónustu þar.



Skjámynd

chaplin
Kóngur
Póstar: 4334
Skráði sig: Fim 26. Mar 2009 14:53
Reputation: 383
Staða: Ótengdur

Re: Mikilvægi þjónustustigs tölvuverslana

Pósturaf chaplin » Fim 21. Mar 2013 15:02

Mig langar nú mest bara að gera þennan þráð sticky, ég vona svo innilega að flest allir verslunareigendur taki þetta til sín!


youtube.com/c/nútímatækni
AirPods ◦ Google Home Mini ◦ Anne Pro ◦ GDPR ◦ Sonos One ◦ Logitech MX Anywhere 2S ◦ Alan Turing ◦ Note 9 ◦ iPhone XS

Skjámynd

Moldvarpan
Vaktari
Póstar: 2534
Skráði sig: Fös 16. Mar 2007 21:31
Reputation: 474
Staða: Ótengdur

Re: Mikilvægi þjónustustigs tölvuverslana

Pósturaf Moldvarpan » Fim 21. Mar 2013 15:04

Hjartanlega sammála öllu sem lagt hefur verið í belg.


Verslanir sem ég ALLTAF fengið topp þjónustu í er Att.is og Tölvutækni, og hef ég beint öllum mínum viðskiptum til þeirra og þeirra sem ég þekki.

Ég er hættur að versla við Tölvulistann og Tölvuvirkni, nákvæmlega útaf nokkrum smáatriðum sem fengu mig til að leita með mín viðskipti annað. Svipað og nefnt hefur verið hér fyrir ofan.
Með tölvuvirkni, þá var það útaf Hyper X minni, sem átti að vera í lífstíðar ábyrgð. Ég fékk endalaust af BSOD með minninu, svo þegar ég fór með það til þeirra, þá sögðust þeir ekkert hafa fundið að því, og ég ætti að borga þeim fyrir að prófa minnin. Þetta var löööngu fyrir hrun.
Með tölvulistann, að þá hafa starfsmenn þar verið margir hverjir að draga niður Tölvulistann með hrikalega lélegu þjónustuviðmóti. Mín upplifun er sú að þeir varla nenni eða einfaldlega þekkja ekki tæknilega inn á margt af því sem þeir eru að selja, og maður gengur vonsvikinn út. Og þetta var verslunarstjórinn sjálfur, en sá maður starfar ekki lengur þarna, en ég hef samt enn sama óbragð í munninum.

Svo klárlega skiptir þjónustustig verslanna gífurlegu máli.




GunnarJons
Nýliði
Póstar: 18
Skráði sig: Mán 24. Okt 2011 18:53
Reputation: 30
Staða: Ótengdur

Re: Mikilvægi þjónustustigs tölvuverslana

Pósturaf GunnarJons » Fös 22. Mar 2013 10:54

Takk izelord fyrir vel ígrundað og vandað innlegg í þessa umræðu. Tek undir að það er til háborinnar fyrirmyndar þegar menn eru málefnalegir og útskýra mál sitt vel án skætings, eins og þú gerir.

Ég byrjaði hjá Tölvulistanum í nóvember 2011 og ber ábyrgð á rekstri og þjónustu okkar verslana síðan þá. Og sem slíkum finnst mér auðvitað miður skemmtilegt að lesa reynslusögur óánægðra viðskiptavina, sérstaklega í þeim tilfellum sem áttu sér stað í Nóatúninu áður en við fluttum upp á Suðurlandsbraut. Margar reynslusögur sem hér eru nefndar eru jafnvel 10-15 ára gamlar. Og gildi þess að leysa málin á sanngjarnan hátt og veita góða þjónustu sannast sennilega best á því þegar viðskiptavinir halda sig frá verslun í áratug vegna þess að vandamál sem kom upp var illa leyst.

Mitt fyrsta verk þegar ég byrjaði hjá Tölvulistanum var að opna þrefalt stærri búð hér á Suðurlandsbrautinni þar sem við erum í dag. Opnun þeirrar búðar markaði ákveðin kaflaskil hvað varðar þjónustumálin þar sem við fórum í mikið átak hjá okkur að bæta þjónustuna okkar. Þetta átak snýst einmitt um að vinna að því í hverju máli að finna sanngjarna lausn og niðurstöðu ef eitthvað kemur uppá með búnað sem við seljum. Eins og dæmið þitt sannar þá eru sannarlega enn brotalamir í því sem við þurfum að vinna betur í, en það er mín tilfinning að þjónustan hjá okkur hafi batnað mikið á stuttum tíma frá því að við fluttum úr Nóatúni. Nálægðin við verkstæðið hefur eitt og sér auðveldað okkur mikið að bæta þjónustuna, þar sem við vorum áður í sitthvoru póstnúmerinu með verslun og verkstæði og boðskiptin ekki alltaf til fyrirmyndar. Nálægðin hefur hjálpað okkur að vinna hraðar og betur úr málum en við gerðum áður.

Athugasemdir þínar gagnvart því að taka ekki við vörum í viðgerð á laugardögum á Suðurlandsbraut eiga fullkomlega rétt á sér og óánægja þín skiljanleg. Af sömu ástæðum og þú nefnir sáum við ástæðu til að breyta þessu hjá okkur fyrir tæpum hálfum mánuði. Núna er hægt að koma á laugardögum í verslunina með vörur í viðgerð og við komum þeim málum áfram til verkstæðisins í byrjun mánudags.

Varðandi routerana þá vil ég gjarnan finna farsæla lausn á því máli með þér. Smelltu endilega á mig pósti á [url]gunnar@tl.is[/url] með kennitölunni þinni svo ég geti kannað málið betur og skildu eftir líka gemsann þinn svo ég get heyrt betur í þér hvernig málið liggur.

Ég hvet þig og aðra á vaktinni að senda mér og Sæmundi beint tölvupóst á s@tl.is og gunnar@tl.is ef þið hafið athugasemdir við þjónustuna hjá okkur. Við viljum gjarnan fá að vita af málum sem miður fara og fá ábendingar um hluti sem við getum bætt okkur í. Hjá okkur er mikill metnaður að tryggja að viðskiptavinir okkar séu ánægðir og ef það er ekki raunin þá vil ég gjarnan fá að heyra af því.

Kveðja,

Gunnar Jónsson
Sölu- og markaðsstjóri Tölvulistans



Skjámynd

rapport
Kóngur
Póstar: 7500
Skráði sig: Mán 27. Apr 2009 13:07
Reputation: 1163
Staða: Ótengdur

Re: Mikilvægi þjónustustigs tölvuverslana

Pósturaf rapport » Fös 22. Mar 2013 13:26

http://www.bilgrein.is/files/log_verk_1135375956.pdf

Hér er grein/fyrirlestur um hvernig lög um þjónustu og lausafjárkaup breyttu landslaginu fyrir bifreiðaverkstæði.

Það má vel sjá fyrir sér að sömu/sambærilegar reglur gildi um önnur verkstæði sbr. tölvuverkstæði.

Sú tölvuverlsun/verkstæði sem birtir ítarlega skilmála og yfirlýsingu um þjónustu er strax búin að setja standard sem hægt er að bera saman milli verslana. Það yrði gæfuspor fyrir okkur neytendur að vita hvers má krefjast.

Það kemur strax upp í hugann að ekkert verkstæði sem ég man eftir er með nokkurskonar vottun um öryggi upplýsinga eða e-h þess háttar.

Ef ég væri að fara með tölvu í viðgerð og sæi þar yfirlýsingu um hvernig þeir banna sjálfum sér að skoða gögn á tölvunni minni þá yrði maður strax rólegri... enda oft mjög persónulegar upplýsingar á tölvunni manns.

Það þyrfti einnig að vera rekjanleiki hver vinnur með hvaða tölvu því að ef upp kemst um upplýsingaleka t.d. að einhver leki ókláraðri doktorsritgerð á netið, þá mun verkstæðið vilja geta fríað sig ábyrgð.

En þarna er komið út í alskonar vitleysu og kannski óraunhæfar kröfur, sérstaklega þar sem stuldur á upplýsingum er augljóst lögbrot hvort sem það er skráð í stefnu fyrirtækisins eða ekki....

a.m.k. verðug pæling að tölvuverkstæði auglýsi sínar stefnur og helstu verklýsingar svo að fólk viti hvað það er aðborga fyrir.



Skjámynd

gRIMwORLD
FanBoy
Póstar: 725
Skráði sig: Fös 19. Des 2008 21:19
Reputation: 42
Staðsetning: Hafnarfjörður
Staða: Ótengdur

Re: Mikilvægi þjónustustigs tölvuverslana

Pósturaf gRIMwORLD » Fös 22. Mar 2013 14:58

rapport skrifaði:http://www.bilgrein.is/files/log_verk_1135375956.pdf

Hér er grein/fyrirlestur um hvernig lög um þjónustu og lausafjárkaup breyttu landslaginu fyrir bifreiðaverkstæði.
Það má vel sjá fyrir sér að sömu/sambærilegar reglur gildi um önnur verkstæði sbr. tölvuverkstæði.
Sú tölvuverlsun/verkstæði sem birtir ítarlega skilmála og yfirlýsingu um þjónustu er strax búin að setja standard sem hægt er að bera saman milli verslana. Það yrði gæfuspor fyrir okkur neytendur að vita hvers má krefjast.
Það kemur strax upp í hugann að ekkert verkstæði sem ég man eftir er með nokkurskonar vottun um öryggi upplýsinga eða e-h þess háttar.
Ef ég væri að fara með tölvu í viðgerð og sæi þar yfirlýsingu um hvernig þeir banna sjálfum sér að skoða gögn á tölvunni minni þá yrði maður strax rólegri... enda oft mjög persónulegar upplýsingar á tölvunni manns.
Það þyrfti einnig að vera rekjanleiki hver vinnur með hvaða tölvu því að ef upp kemst um upplýsingaleka t.d. að einhver leki ókláraðri doktorsritgerð á netið, þá mun verkstæðið vilja geta fríað sig ábyrgð.
En þarna er komið út í alskonar vitleysu og kannski óraunhæfar kröfur, sérstaklega þar sem stuldur á upplýsingum er augljóst lögbrot hvort sem það er skráð í stefnu fyrirtækisins eða ekki....
a.m.k. verðug pæling að tölvuverkstæði auglýsi sínar stefnur og helstu verklýsingar svo að fólk viti hvað það er aðborga fyrir.


Það á ekki að þurfa að taka fram að samkvæmt persónuverndarlögum er tæknimönnun tölvuverkstæða óheimilt að lesa yfir gögn sem er að finna á tölvum viðskiptavina. Það er ekkert sem mælir þó gegn því að setja sterkari ramma hjá fyrirtækjum eins og mörg stórfyrirtækin gera þar sem tæknimenn eru látnir skrifa undir trúnaðaryfirlýsingar og brot á þeim getur leitt til brottreksturs úr starfi.

Ég er sammála því að upplýsingar um verklag og verð á einstaka verkliðum er mjög ábótavant á heimasíðum tölvuverslana og verkstæða en oftast nær eru þessar upplýsingar aðgengilegar á staðnum, eiga allavega að vera það.


IBM PS/2 8086