OCZ NIA (Neural Impulse Actuator) Heilamúsin Review


Höfundur
Yank
</Snillingur>
Póstar: 1058
Skráði sig: Mið 29. Des 2004 17:01
Reputation: 0
Staðsetning: www.tech.is
Staða: Ótengdur

OCZ NIA (Neural Impulse Actuator) Heilamúsin Review

Pósturaf Yank » Sun 07. Des 2008 22:22

Það hafa eflaust margir velt því fyrir sér hvenær dagar músar og lyklaborðsins verða taldir. Hvenær hverfur þessi kunnuglegi jaðarbúnaður af markaði, og hvað tekur við? Það eru ýmsar útfærslur í þróun eins og t.d. raddstýring, og snertiskjáir. Raddstýring virkar þannig að þú segir tölvunni hvað þú vilt að hún geri, og hún tekur niður það sem þú segir án þess að höndin komi þar nokkur staðar að, nokkurskonar einkaritari. Microsoft og fleiri fyrirtæki hafa þegar gert tilraunir með slíkt og stuðningur við raddstýringu hefur þegar sést í Windows XP og Vista, þótt það hafi eflaust farið fram hjá mörgum.
>>>
Á endanum má svo jafnvel sjá fyrir sér að tölvan hreinlega lesi hugsanir þínar og taki þannig við skipunum. Tilraunir til slíks hafa þegar verið gerðar, en helsta vandamálið við þá tækni er það hversu auðvelt er að láta hugann reika.

Það hafa hingað til ekki verið efnistök í þessum umfjöllunum að skrifa um vísindaskáldskap, en verður breyting á því nú eða hvað?

Efni þessarar greinar verður OCZ NIA (Neural Impulse Actuator) sem OCZ setti á markað í mars 2008. Þetta tæki er það fyrsta sinnar tegundar, en það nemur rafboð og heilabylgjur, og breytir þeim í skipanir sem tölva skilur. Mætti kalla gælunafninu „heilamús“.

Mynd

Það tæki sem hér er prófað var lagt til af Tölvutek umboðsaðila OCZ hér á landi.

Aðeins um OCZ Technology Group, Inc.

OCZ Technology Group hannar, þróar og framleiðir, hágæða minni og marga aðra tölvuhluti. OCZ hefur sett staðal sem öðrum fyrirtækjum reynist oft erfitt að fylgja eftir. Fyrirtækið vill að vörur þess séu fyrsta val harðkjarna tölvuáhugamanna, eða einstaklinga sem sækjast aðeins eftir því besta. Frekari upplýsingar er hægt að nálgast á http://www.ocztechnology.com
>>>
Kassi og fylgihlutir

Það er óhætt að segja að kassinn utan um NIA hafi komið á óvart. Fyrir vöru markaðssetta með leikjaspilara í huga þá eru umbúðirnar óvenju einfaldar, fágaðar og stílhreinar.

Mynd

Upplýsingar á kassanum gefa til kynna að þarna sé á ferðinni óvenjulega vara, því frasar eins og; „Advanced Biotechnology for Gaming“, „Use Space-Age Technology“, „Hone Your Reflexes“, prýða kassann.

Mynd

Bæklingurinn sem fylgir með er nokkuð ítarlegur

Fylgihlutir

Bæklingur
CD með manual af pdf formi og meðfylgjandi hugbúnaði
NIA álboxið
Höfuðbandið
USB A til B kapall

Höfuðbandið er úr plasti og virkar mjög einfalt að gerð, en þrír tígullagaðir nemar gera það geimaldarlegt og í raun ólíkt öllu öðru sem maður hefur kynnst áður þegar kemur að jaðarbúnaði. Ef ég væri að mæta í rannsókn sem ætti að nema heilabylgjur og rannsaka þannig hvort starfsemi heila væri í lagi, myndi mér ekki bregða. En þegar maður sér þetta í fyrsta skipti og áttar sig á því að ætlast er til þess að maður spili tölvuleiki með þessu, verður maður svolítið skeptískur og hissa.

Höfuðbandið virkar ekki neitt sérstaklega vönduð smíð og er frekar plastlegt. Neðar á höfuðbandinu eru nemar sem hafa þann tilgang að nema vöðvahreyfingar t.d. við það að lyfta augabrúnunum.

Mynd

Álkassinn utan um OCZ NIA er vönduð smíð, með fótum úr gúmmítöppum, sem gera hann stöðugan á borði. Ekki spillir fyrir bláa neon ljósið sem lýsir undan þegar OCZ NIA er tengdur.

Ekki þarf að hafa áhyggjur af því að höfuðbandið passi ekki þótt maður sé höfuðstór, því ein stærð passar á alla. Undirritaður er sjálfur frekar höfuðstór og OCZ NIA gengur á mun stærri höfuð en mitt. Höfuðbandið er þrengt að höfðinu með kúluklemmu sem báðir endar eru þræddir í gegnum.

Mynd

Tígullaga nemarnir eru staðsettir á enni þegar höfuðbandið er á sínum stað
>>>
Hvað er OCZ NIA?

OCZ NIA er taugaboðaskynjari (EEG, electroencephalograph, electro-myogram, electro-oculogramito) sem hefur þann tilgang að nema vöðvasamdrátt, augnhreyfingar, og heilabylgjur, túlka þessi boð yfir í skipanir, og lyfta þannig stjórnun á karakter í leik í nýjar hæðir. OCZ NIA er ekki ætlað að koma algjörlega í stað músarinnar, heldur vinna með hefðbundunum stjórntækjum sem þegar eru til staðar og allir þekkja. OCZ NIA nemur með hjálp ennisbandsins rafboð sem verða við afskautun vöðvafrumna í samdrætti þeirra. Hægt er að nota sértækar hreyfingar í andliti eins og að lyfta augabrúnum til þess að tákna skipun í leik. Hvort sem það er til þess að láta karakter leiksins hoppa, setjast, endurhlaða vopn, skjóta osfv.

Mynd

Hægt með hjálp hugbúnaðarins sem fylgir OCZ NIA að tengja hvert og eitt vöðvaviðbragð, augnviðbragð, eða heilabylgjur við skipun í leik og stilla sérstaklega. Möguleikarnir eru jafnmargir og skipanir hvers leiks bjóða uppá: ganga, hlaupa, hoppa, skjóta, leggjast, ASWD eða hreinlega (quick save) vista leikinn.

NIA getur einnig numið styrk boða þannig hægt er að láta skipanir vera styrkstýrðar eftir því hversu mikið reynt er á tiltekin vöðva. Þannig er hægt að færa spaðann í ping pong æfingaleiknum sem fylgir, upp með því að draga vöðvann saman en niður með því að slaka á honum. Þrjár æfingar fylgja með, þar sem hægt er að æfa notkun OCZ NIA.

Nú hugsar eflaust einhver, en til hvers? Þetta er allt hægt að gera með mús eða lyklaborði eða jafnvel game pad. Helsti kostur OCZ NIA er viðbragðsflýti, en með æfingunni verður maður mun fljótari að bregðast við aðstæðum. Þetta er auðvelt fyrir mann að sannreyna ef prufuð er ein af þeim æfingum sem fylgja með OCZ NIA. Hún gengur út á það að færa músardepilinn yfir á kassa sem birtast hægra eða vinstramegin við miðju og smella með með vinstri músartakkanum á kassann eins fljótt og þú getur þegar hann birtist. Þú nærð mun fljótara viðbragði ef þú notar OCZ NIA til þess að vera vinstri músartakkann og notar músina einungis til hreyfinga.

Nánar um OCZ NIA hér http://www.ocztechnology.com/products/o ... e_actuator
>>>
Uppsetning:

Samkvæmt leiðbeiningabæklingnum sem fylgdi á að byrja uppsetningu á því að afrit af meðfylgjandi CD, möppu sem heitir NiaProfiles, yfir á rót C drifsins. Þetta skref virðist reyndar úrelt í leiðbeiningum því uppsetningar forritið sér um þetta. Þessi mappa inniheldur prófíla fyrir nokkuð af leikjum, og alla þá prófíla sem notandi myndar eða vistar er að finna þarna. Hægt er að nálgast fleiri prófíla á heimasíðu OCZ og notendur geta skipst á prófílum sem þeir hafa myndað.

Eftir einfalda uppsetningu á meðfylgjandi hugbúnaði með því að styðja á Next nokkrum sinnum, ræsist forritið upp og gluggi kemur upp þar sem hægt er að velja Kennslu (Tutorial), Stillingu (Calibration), eða Go To Game Play.

Mynd

Í kennslu (Tutorial) hlutanum er hægt að velja mismunandi leiðbeiningar og þar birtist AI kvenmanns karakter sem er með full tölvugerða rödd og þurfti ég að spila myndbandið tvisvar til þess að ná því sem hún sagði, enda sagði hún það með frekar undarlegum hreim. Eftir fyrsta myndbandið, sem fjallar um hvar berir að staðsetja höfuðbandið er þér ráðlagt að fara beint í Calibration.

Mynd

Eftir að því er lokið er komið að því að stilla (calibration) NIA fyrir vöðvahreyfingum fyrir hvern og einn notanda. Stillingin felur í sér að horfa á hringi snúast um hnött í nokkrar sekúndur og við það stillist merkið frá nemanum niður að byrjunarlínu. Ef merki fer síðan yfir þá línu fæst svar sem túlka má sem skipun í leik.

Mynd
>>>
Prófanir

OCZ NIA er forvitnilegasta og skemmtilegasta græja sem ég hef prófað, ekki síst fyrir þær sakir að prófanir fela í sér að leika sér nær eingöngu í tölvuleikjum. Ef ég dreg saman þá reynsluna í eina setningu, sem ég hef orðið af OCZ NIA eftir að hafa spilað af og til með hjálp tækisins í rúman mánuð, þá er hún þessi;
Stundum hefur mig langað að kyssa tækið og stundum hefur mig langað að takka allt saman og henda því af öllu afli í vegg!

Það að læra að nota OCZ NIA er erfitt enda mikið sem þarf að læra, það stríðir einhvern veginn gegn öllu eðlilegu í fari mans að geifla á sér andlitið til þess að fá hluti til þess að gerast. Aðal vandamálið er að fá OCZ NIA til að skilja hvað maður vill, eða finna út og skilja hvað það er sem OCZ NIA nemur.

Það tók mig nokkur kvöld að átta mig á því hvernig OCZ NIA gæti gagnast mér í leik. Lykilinn að árangri er að byrja smátt og tengja einungis eina skipun við OCZ NIA til að byrja með. Í upphafi var eina sem ég fékk NIA til að nema á áreiðanlegan hátt, að lyfta báðum augabrúnum og tengja það er skipun í leik. Síðan er hægt koll af kolli að byggja ofan á þetta eftir að maður finnur fleiri leiðir til þess að láta NIA nema skipanir. Þannig á endanum er hægt að hlaupa um stöðva, skjóta hoppa eða bakka karakternum með hjálp OCZ NIA.

Það hjálpaði einnig að uppfæra hugbúnaðinn frá OCZ fyrir NIA, því hann hafði greinilega verið uppfærður töluvert og stækkað þrefalt frá því sem upphaflega fylgdi.

Það var óneitanlega mjög sérstök upplifun þegar hlutirnir smullu saman með OCZ NIA og hægt var að notað tækið til fleiri hluta heldur en bara að lyfta augabrúnunum einum saman til þess að framkvæma skipun. Allt í einu eftir að hafa fiktað töluvert í stillingunum fór þetta að smella betur saman. Þegar ég spilaði Crysis, nánar tiltekið borðið í fjallinu þar sem karakterinn svífur um í þyngdarleysi. Þá náði ég fyrsta skipti góðum tökum á því að nota einungis mús til þess að stýra stefnu og OCZ NIA til þess að fara áfram, aftur á bak, stoppa, og skjóta.

Mynd

Það er skrítið að þurfa allt í einu að verða meðvitaðri um það að hafa betri stjórn á sér í leik. Verða ekki of æstur þegar skotið er á karakterinn, bölva og ragna ekki. Slík viðbrögð geta valdið óþarfa svörun tækisins og endað með skotum út í loftið.

Það sem er erfitt að gera með hjálp OCZ NIA er að stoppa snögglega. Því finnst mér ekkert óeðlilegt að sjá talað á spjallvefjum að OCZ NIA nýtist helst í FPS leikjum eins og UT3 þar sem það er þér í hag að vera meira og minna alltaf á ferðinni.

Ég vil kenna tímaskorti og óþolinmæði um að mér hefur ekki tekist að ná valdi á OCZ NIA þannig að af sé prýði. Ef maður leitar aðeins á netinu og skoðar hvaða árangri menn eru að ná, þá virðist það mjög misjafnt, sumir ná mjög góðum árangri með OCZ NIA og geta nánast alveg sleppt því að nota lyklaborð og nota músina einungis til stefnustýringar. Ég get þó huggað mig við það að sumir eru ekki að ná neinum árangri og gera lítið annað en að kvarta, og virðast því hafa minni þolinmæði en ég.

Að lokum er hér myndband frá OCZ sem skýrir vandamál getur komið upp og ég lenti í sjálfur en það hefur með styrk merkis og að tækið nái ekki almennilega jörðj og truflanir sem tækið getur orðið fyrir.

[youtube]4yOSPTpc63E[/youtube]

http://www.youtube.com/watch?v=4yOSPTpc63E

>>>
Samantekt

OCZ NIA er undarlegasta og framúrstefnulegasta jaðartæki sem ég hef prófað. Manni detta í hug frasar eins og „Heilamúsin“ eða „Geiflaðu andlitið til þess að spila“.

Mynd

Í fyrstu var erfitt að skilja tilganginn með OCZ NIA og tækið gerði lítið annað en að reyna á þolinmæði mína. En þegar allt smellur saman og þú nærð smásaman tökum á OCZ NIA, þó ekki sé nema að litlu leiti eins og í mínu tilviki, þá verður spilun með tækinu óvenjuleg en ánægjuleg upplifun. Vandamálið er að leiðin að ánægjunni getur verið löng og ströng.

Það er þessi langa leið sem er helsti veikleiki OCZ NIA. Það er klassískt í bransanum að kalla slíkt „notenda vandamál“, þ.e. kunnáttuleysi notanda er til vandræða. Ég held að það smelli bara enginn OCZ NIA á höfuðið og fraggi hægri vinstri á fyrsta kvöldi. Sér í lagi ekki notandi sem hefur síðustu ár eða jafnvel áratugi notast við mús og lyklaborð til þess. Það er nefnilega erfitt að kenna gömlum hundi að sitja.

Hverjum gagnast þá OCZ NIA?
OCZ NIA gagnast þér meira ef þú ert tilbúinn að æfa þig í að notkun þess. Meiri æfing skapar meiri gagnsemi.

Myndi tech.is mæla með OCZ NIA?
OCZ NIA er klárlega ekki án vandamála og verðið er ekki lágt. Það er reyndar ekki við öðru að búast enda er þetta fyrsta og eina græjan á markað af þessu tagi. Ef þú hefur efni á OCZ NIA þá er þetta ótrúlega forvitnileg græja sem enginn tölvuáhugamaður ætti að láta fara fram hjá sér að kynnast.

OCZ er klárlega fyrirtæki með hreðjarnar á réttum stað, því að þora að taka það skref og koma með svona tæki á markað er aðdáunarvert.

Það verður ekki tekið af OCZ NIA að það virkar.

Copyright Yank
Editor RISI