jonsig skrifaði:Hala þeir tekjunum inn með sölu á HDMI köplum
Þú lifir ekkert á 25% álagningu, alveg sama hvað þú selur
Ég þekki ekkert sjónvarpsmarkaðinn, en þegar ég vann í tölvubransanum að þá reyndum við að halda meðalframlegð á seldum vörum um og yfir 20%, sem samsvarar 25% álagningu frá innkaupaverði. Þegar við kíktum yfir mánuðinn í bókhaldskerfinu, þá var framlegðin frá 20-25%.
Þarna er ég bara að tala um m.v. innkaupaverð, með flutningi. Það á eftir að borga laun, húsnæði, og allan annan tilfallandi kostnað.
Pöntuðum mest frá USA á þessum tíma, og þurftum þá að taka á okkur þá sumt af því sem bilaði eftir fyrsta árið, þar sem við þurftum (eðlilega) að bjóða 2 ára árbyrgð en fengum sumt bara í árs ábyrgð.
Það hafði reyndar jákvæðar hliðar, þar sem að við reyndum þá enn frekar að stíla bara á þá framleiðendur sem reyndust okkur vel, bæði hvað varðaði lága bilanatíðni, og ábyrgðarmál þegar eitthvað þó bilaði.
jonsig skrifaði:Flestir hafa ekki hugmynd um hvað það er hressileg álagning á vörum á Íslandi. Ebay og amazon er ekki viðmiðun á innkaupsverði.
Það var ekki einu sinni sjálfgefið að við fengjum sömu verð frá birgjum og við sáum t.d. á Newegg. Hins vegar er það, líkt og þú segir, ekkert leyndarmál að smádót er með mikilli álagningu. Snúrur og kaplar, fartölvutöskur, USB minnislyklar og ýmislegt fleira tilfallandi, var oft með alveg ágætis álagningu hjá okkur. Sjaldnast þó margfalda, en talsvert meira en aðrar vörur sem við seldum.
Ég reyni þó að réttlæta það með því að þetta eru oft hlutir sem þú getur setið uppi með. Held að Pési hafi ekki náð að losa sig við t.d. ýmsar fartölvutöskur og fartölvu "sleeves", var enn sama draslið upp í hillu 10 árum eftir að ég hætti...
Þrátt fyrir að meðalframlegð hafi verið frá 20-25%, þá gekk reksturinn bara fínt. Ég var á fínum launum m.v. aldur og fyrri störf, og Pési eigandi hafði það bara helvíti gott. Hann var hins vegar mjög útsjónarsamur og sparsamur á aðra hluti. Keypti húsnæðin sem að búðin var rekin í, svo húsnæðiskostnaður var lægri til lengri tíma litið. Skutluðum rúmfrekum vörum í stað þess að senda með póstinum. Vorum almennt ekki með plastpoka heldur settum vörur í pappakassa. Lágmörkuðum notkun á uppflettingum í þjóðskrá. Var ákveðinn Múrbúðarbragur á þessu, en held að fólk hafi almennt verið ánægt með okkur.
Pési var með ákveðin prinsipp, það var annars vegar að versla eins lítið og hann gat innanlands, því þú gætir ekki verið í samkeppni við stóru innflytjendurnar, því þeir ráku sínar eigin verslanir líka. En einnig var það að vera alltaf ódýrastur með sambærilegar vörur. Veit ekki hverjir muna eftir því, en á tímabili var rosalegt verðstríð útaf örgjörvum. Þar má þakka Vaktinni fyrir, þar sem að örgjörvar eru fyrsta síðan á Verðvaktinni, og þú vildir vera grænn þar.
Þá vorum við farnir að borga allt uppundir 5000kr með ákveðnum týpum af örgjörvum, og Björgvin í Tölvuvirkni brá á það ráð að bjóða fólki að kaupa örgjörva hjá okkur og hinum vitleysingunum sem tóku þátt, og kaupa þá svo af þeim á hærra verði.
Afsakið þessa nostalgíu ritgerð, ég sit hérna einn í rólegheitum og geri kannski frekar upp árin í Tölvutækni heldur en árið sem er að líða