Danice-verkefnið
Sent: Mið 17. Feb 2010 16:14
Ólöf Nordal RS S skrifaði:Fyrirspurn
til fjármálaráðherra um Danice-verkefnið.
Frá Ólöfu Nordal.
1. Hver er staðan á Danice-verkefninu?
2. Hverjar eru forsendur þess að verkefnið gangi upp fjárhagslega?
3. Hversu mikið þarf umferð um sæstrengi að aukast til að fjárfestingin borgi sig?
4. Hver er ávöxtunarkrafan við þessa fjárfestingu?
5. Hvaða afleiðingar gætu tafir á lagningu strengsins haft á uppbyggingu gagnavera?
Skriflegt svar óskast.
Fjármálaráðherra skrifaði:
Svar
fjármálaráðherra við fyrirspurn Ólafar Nordal um Danice-verkefnið.
1. Hver er staðan á Danice-verkefninu?
Lagningu DANICE-sæstrengsins er lokið og hófu viðskiptavinir að nota strenginn í september sl. Notendur í dag eru:
a. Íslensk síma- og fjarskiptafélög sem nota strenginn ásamt FARICE-strengnum.
b. Erlent félag (Nordunet A/S í Danmörku) sem tengir íslenska háskóla- og rannsóknasamfélagið við hliðstæð samfélög á Norðurlöndum og víðar um báða sæstrengina, DANICE og FARICE.
2. Hverjar eru forsendur þess að verkefnið gangi upp fjárhagslega?
Tvær meginástæður eru fyrir því að ráðist var í DANICE-verkefnið:
a. Til þess að tryggja öryggi landsins í samböndum til útlanda var talið mikilvægt að leggja annan sæstreng sem hefði sambærilega flutningsgetu og Farice strengurinn og í raun alltaf á áætlun, allt frá árinu 2004. Flutningsgeta CANTAT-3 sæstrengsins, sem þjónað hafði sem varaleið fyrir FARICE-sæstrenginn, var löngu orðin allt of lítil, og voru líkur á því að rekstri þess sæstrengs yrði hætt.
b. Þegar umræðan um gagnaver á Íslandi hófst fyrir alvöru fyrir 3–4 árum var ljóst að ein forsenda þess að áform um gagnaver yrðu að veruleika var að a.m.k. tveir sambærilegir sæstrengir lægju milli Íslands og Evrópu.
Áætlað er að fjarskiptaumferð vegna gagnavera hefjist um báða sæstrengi fyrri hluta ársins 2010. Tekjur af þessari umferð, auk tekna frá síma- og fjarskiptafélögum, þurfa að standa undir rekstri beggja sæstrengjanna, auk fjármagnskostnaðar. Frekari tafir á umferð gagnavera en þegar hafa orðið hafa neikvæð áhrif á afkomu E-Farice ehf og Farice hf.
3. Hversu mikið þarf umferð um sæstrengi að aukast til að fjárfestingin borgi sig?
Við lagningu sæstrengja verður að ákveða í upphafi hver hönnunarstærð sæstrengs skyldi vera. Í tilfelli DANICE er hönnunarstærðin 5120 Gbit/s en einungis settur upp endabúnaður fyrir 100 Gbit/s flutning í upphafi. Fjárfest verður í stækkunum endabúnaðar umfram 100 Gbit/s í takt við þarfir hverju sinni. Í viðskiptaáætlunum fyrir DANICE (og FARICE) er gert ráð fyrir jákvæðri afkomu rekstrar innan 3–5 ára, háð umferð gagnavera og annarra.
4. Hver er ávöxtunarkrafan við þessa fjárfestingu?
Sæstrengir sem slíkir eru langtímafjárfesting, langmestur hluti fjárfestingarinnar verður til í upphafi, en líftími er 20–25 ár. Hvað Ísland varðar má skilgreina sæstrengi sem eins konar „þjóðvegi“, þ.e. meginleiðir þjóðfélagsins til þess að eiga samskipti við aðrar þjóðir. Rök hluthafanna til þess að taka þátt í uppbyggingu og rekstri sæstrengskerfa eru því mismunandi, t.d. hlýtur þáttur hins opinbera að vega þungt, því hér er um að ræða eins konar grunnkerfi sem verður að vera til staðar. Ávöxtunarkrafan er því frekar lág.
5. Hvaða afleiðingar gætu tafir á lagningu strengsins haft á uppbyggingu gagnavera?
Nokkurs misskilnings gætir um stöðu DANICE-sæstrengsins. Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. er lagningu strengsins nú lokið og hann kominn í rekstur. Áætlað var að tekjur yrðu allnokkrar af starfsemi gagnavera þegar á árinu 2009 en ljóst er að þær tekjur frestast nokkuð. Í dag eru þrír sæstrengir til reiðu, þ.e. FARICE og DANICE til Evrópu og GREENLAND CONNECT, sem er í eigu Tele Greenland, en sá strengur liggur um Grænland til Kanada. Íslendingar hafa því í dag alla burði til að mæta kröfum gagnavera um áreiðanleika og flutningsgetu fjarskiptaleiða til og frá landinu. Íslensk fyrirtæki og almenningur njóta þess nú þegar í auknu öryggi í samskiptum við útlönd.
Heimildir: Alþingi.is