Þann 20./21. mars næstkomandi verður Forritunarkeppni Framhaldsskólanna haldin í 20. skiptið, og okkur sem stöndum á bakvið keppnina langar að halda uppá það. Sem hluti af því langar okkur að komast í samband við gamla keppendur sem gætu hjálpað okkur við eftirfarandi:
1. Á hverju ári hafa keppendur fengið keppnisboli, en okkur langar að hafa þessa 20 boli til sýnis á meðan keppninni stendur. Við erum komin með eintak af öllum bolunum fyrir utan þann sem var á fyrstu keppninni, árið 2001. Er einhver hér sem á hann ennþá?
2. Okkur langar að heyra skemmtilegur sögur eða staðreyndir frá fyrri keppendum, hvort sem það er eitthvað sem gerðist í keppninni, í kjölfarið af keppninni, eða löngu seinna. Eruð þið í liðinu ykkar ennþá vinir? Fórst þú að vinna við eitthvað áhugavert? Stofnaðirðu fyrirtæki? Þetta er mjög opið og við erum spennt fyrir öllu áhugaverðu, sama hversu smátt það er. Þetta langar okkur svo að gera opinbert, hvort sem það er á vefsíðunni okkar eða sem smáfyrirlestur á keppninni.
3. Okkur langar að bjóða fyrri keppendum að koma aftur og spreyta sig sjálfir á keppninni í ár, bara upp á gamnið! Tilvalið að heyra í gömlu liðsfélögunum og sjá hvort þeir séu ekki til í eina keppni í viðbót.
Ef þið getið hjálpað okkur við eitthvað af þessu, endilega sendið okkur línu á keppnisforritun@gmail.com, eða kommentið hér fyrir neðan.